Harpa leggur ríka áherslu á barna- og fjölskyldumenningu og býður upp á fjölskyldudagskrá sem er aðgengileg öllum börnum, gestum að kostnaðarlausu.
Harpa vill ná til allra barna til að sýna þeim að þau eigi sér stað í Hörpu og geti notið menningar og lista, auk þess að skapa sjálf.
Í dagskrárstefnu Hörpu fyrir börn og fjölskyldur er áhersla sett á að aðlaga viðburði að börnum og fjölskyldum af ólíkum uppruna og með ólíkar þarfir. Lögð er áhersla á þátttöku, upplifun, fræðslu, fjölbreytni og fjölmenningu í viðburðum. Markmiðið er að tengjast mismunandi hópum samfélagsins. Er það til dæmis gert með túlkun á mismunandi tungumálum eða beinni þátttöku barna frá ólíkum leik-, grunn- og tónlistarskólum.
Dagskrá starfsársins 2024-2025
Dagskráin er sérstaklega gerð með inngildingu og aðgengi fyrir öll börn og fjölskyldur að leiðarljósi með smiðjum og tónlistarviðburðum í samstarfi við félaga- og réttindasamtök ólíkra hópa og listafólks.
Vinsamlega athugið að hér fyrir neðan birtast allir viðburðir fyrir börn og fjölskyldur sem haldnir eru í Hörpu. Harpa leigir einnig út sali til viðburðahaldara og eru þeir viðburðir ekki hluti af fjölskyldudagskrá Hörpu. Viðburðir á vegum Hörpu eru ókeypis og eru sérstaklega merktir Fjölskyldudagskrá Hörpu.
Hljóðhimnar er upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur þeirra, staður til að uppgötva töfraheim hljóðs og tóna. Hægt er að setja sig í stellingar hljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, kíkja inn í músaholur Maxímús Músíkús, sigla um með Tónstýri Stórsveitar Reykjavíkur eða hringja í óperusíma. Í Hljóðhimnum slær hjarta barnamenningar í Hörpu. Rýmið er aðgengilegt gestum á opnunartíma hússins og aðgangur frír.